Barátta stjórnvalda í Argentínu gegn vogunarsjóðum gæti snúist í höndunum á þeim og haft neikvæð áhrif á þjóðina, að mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS). Þetta er mat sjóðsins í kjölfar þess að hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði að stjórnvöld þurfi að greiða lánardrottnum landsins 1,3 milljarða dala eða sem svarar til tæpra 150 milljarða íslenskra króna.

Eftir að dómurinn féll lækkaði matsfyrirtækið Standard & Poor's lánshæfiseinkunnir landsins og varaði við því að niðurstaðan geti aukið líkurnar á því að stjórnvöld geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Breska útvarpið ( BBC ) segir Axel Kicillof, ráðherra efnahagsmála í Argentínu, hafa lýst því yfir að stjórnvöld ætli að stokka upp skuldirnar og laga fjárhagsstöðuna. Það verði gert í samræmi við lög.