Markaðurinn metur líkurnar á greiðslufalli gríska ríkisins nú 98% samkvæmt frétt Bloomberg en svo háar líkur jafngilda nánast vissu. Þar kemur fram að matið sé reiknað út frá skuldatryggingarálagi af greininarfyrirtækinu CMA en skuldatryggingarálagið á Grikkland er nú 3.800 punktar ofan á markaðsvexti að sögn Bloomberg.

Giorgios Papandreou, forsætisráðherra landsins, hefur ekki tekist að sannfæra markaðinn um að neyðaráætlun hans í efnahagsmálum, sem meðal annars felur í sér mikla niðurskurði og skattahækkanir, muni virka og því eru líkurnar á greiðslufalli taldar mun hærri en áður.

„Allir verðleggja skuldabréf Grikklands eins og greiðslufall sé yfirvofandi og ég held að það myndi hafa slæmar afleiðingar í för með sér, “ segir Peter Tchir, stofnandi vogunarsjóðsins TF Market Advisors, í samtali við Bloomberg. „Þessi neyðaráætlun er greinilega ekki að virka,“ bætir hann við.