*

fimmtudagur, 20. febrúar 2020
Innlent 2. ágúst 2019 15:07

Lilja Alfreðs: Evran var mistök

Menntamálaráðherra segir evruna hvorki hafa hentað Íslandi fyrir hrun né í uppgangi síðustu ára og vitnar í Friedman.

Ritstjórn
Lilja Dögg Alfreðsdóttir er mennta- og menningarmálaráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins.
Haraldur Guðjónsson

Umræðan um mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu byggist ekki á því hvað sé sjálfbært fyrir íslenskt hagkerfi að,, hún einkennist oft af fyrirsögnum og í hana vantar alla dýpt, segir Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

„[…] við sjáum til dæmis að Viðreisn telur að við eigum að fara í Evrópusambandið af því að við þurfum stöðugri gjaldmiðil,“ segir Lilja í ítarlegu viðtali við Þjóðmál sem kom út í dag sem fæst í betri bókaverslunum.

„Færustu hagfræðingar veraldar færa fyrir því góð rök að evran hafi verið mistök fyrir þau hagkerfi þar sem samleitni hagsveifla er ekki nægjanleg. Ábatinn af þátttöku í sameiginlegu myntsvæði verður að vera meiri en kostnaðurinn. Barry Eichengreen nefnir að ábatinn sem fólginn er í því að lækka viðskiptakostnað vegna sameiginlegrar myntar sé lítill og hægt sé að kaupa varnir á gjaldeyrismörkuðum gegn slíku.

Milton Friedman sagði á sínum tíma að slæm framkvæmd á peningastefnu væri til þess fallin að skaða hagkerfið og hagvaxtarmöguleika til framtíðar. Paul Krugman og Joseph Stiglitz eru á sama máli. Í mjög áhugaverðri bók eftir Ashoka Mody, Euro Tragedy, er rakið vel hvernig evran varð til í pólitískum hrossakaupum Frakka og Þjóðverja. Evran var draumur franska forsetans Pompidou og taldi hann að með stofnun hennar myndu Frakkar standa Þjóðverjum meira jafnfætis.“

Átti að vera arfleifð Helmut Kohl

Þá rifjar Lilja upp að það hafi ekki orðið fyrr en í stjórnartíð Helmuts Kohl, kanslara Þýskalands, að evran varð að veruleika þvert á vilja þýska seðlabankans og fjármálaráðuneytisins.

„Ráðgjafar Kohl sáu að hann var harðákveðinn í þessu, þetta átti að vera arfleifð hans, en þá var hann bara beðinn um að sleppa Ítalíu, því að ríkisfjármálin þar myndu aldrei ráða við að vera á sameiginlegu myntsvæði. Það er mjög vandasamt að vera með sameiginlega mynt án þess að vera með sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum og sameiginlega skuldabréfaútgáfu,“ segir Lilja.

„Wolfgang Schäuble, forseti þýska þingsins og fyrrverandi fjármálaráðherra, segir að draga megi í efa hvort þróun Evrópusambandsins sé á réttri leið, þar sem ekki var farið í að styðja við peningastefnuna þegar henni var hrint í framkvæmd. Nú sé það of seint og erfitt verði að sannfæra aðildarríki ESB um að setja á laggirnar pólitískt sambandsríki.“

Þá segir hún að það sé ekki nóg að tala bara um stöðugan gjaldmiðil sem mælikvarða á lífsgæði.

„Við höfum nú upplifað eitt mesta hagvaxtarskeið sögunnar með uppbyggingu ferðaþjónustunnar, sem leitt hefur af sér mikið innflæði á gjaldeyri. Við höfum verið með hagvöxt upp á um 4% að meðaltali og þá vilja sumir að við séum á sama tíma með lágvaxtagjaldmiðil með neikvæða raunvexti. Við hefðum með þannig gjaldmiðil endað í óraunhæfum hagvexti og allt hefði farið úr böndunum,“ segir Lilja og vísar aftur til skrifa Milton Friedman.

„Nú er samdráttur en þá erum við með okkar peningastefnu, sem við gætum ekki ef við værum á evrusvæðinu. Hagsveiflur eru ekki samfelldar á milli Íslands og lykilhagkerfa í Evrópu. Því þurfum við að vera með sveigjanlegri mynt og þá peningastefnu sem tekur mið að því sem er að gerast hér.

Við erum nú með stóran gjaldeyrisforða og hreina erlenda skuldastöðu upp á 21% af landsframleiðslu, sem er nýlunda í íslenskri hagsögu. Skilyrðin eru okkur hagfelld en hagkerfið er vissulega smátt og við erum alltaf viðkvæmari fyrir utanaðkomandi aðstæðum. Við þurfum alltaf að vera á tánum en ég fullyrði að við hefðum aldrei getað unnið með jafngóðum hætti úr fjármálahruninu ef við hefðum verið í ESB.“

Lesa má viðtalið í heild í Þjóðmálum, ásamt fjölda af annarri umfjöllun, en hægt er að skrá sig í áskrift á facebook síðu tímaritsins eða með pósti á askrift@thjodmal.is