Lilja Björg Ágústsdóttir hefur gengið til liðs við eigendahóp OPUS lögmanna. OPUS lögmenn er lögmannsstofa sem stofnuð var árið 2006 og er með tvær starfsstöðvar, eina í Austurstrætinu í Reykjavík og hina í Borgarnesi. OPUS lögmenn hafa verið þekktir fyrir að sinna ráðgjöf og öflugri hagsmunagæslu fyrir einstaklinga og fyrirtæki um árabil. Með innkomu Lilju í eigendahópinn er brotið blað í sögu stofunnar en hún er fyrsta kona sem verður eigandi síðan fyrirtækið var stofnað.

Lilja Björg hefur starfað sem fulltrúi hjá OPUS lögmönnum síðan snemma árs 2019. Hún kláraði meistarapróf í lögfræði árið 2017 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi ári síðar. Lilja er einnig með b.ed. gráðu í grunnskólakennarfræðum og starfaði sem kennari um 7 ára skeið áður en hún hóf laganámið. Lilja Björg hefur einnig sinnt aðstoðarkennslu samhliða námi og síðar stundarkennslu við Háskólann á Bifröst, bæði í háskólagátt og við lagadeildina.

„Ég stefndi alltaf á lögmennskuna og finnst starfið mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Fjölbreytnin er að sama skapi það sem gerir starfið krefjandi og það eru nýjar áskoranir á hverjum degi. Áhuginn á lögfræðinni kviknaði snemma en ég er örugglega búin að horfa á alla raunveruleikaþætti um sakamál og rekstur dómsmála sem hafa verið framleiddir. Ég hef alltaf haft sterka réttlætiskennd en þvi finnst mér einnig heillandi við lögmennskuna að sinna hagsmunagæslu, sækja rétt umbjóðenda minna og að vera í þeirri stöðu að geta stutt við fólk í gegn um erfiða kafla lífi sínu," segir Lilja sem kveðst spennt fyrir nýju hlutverki og að taka þátt í frekari þróun fyrirtækisins.

Sérsvið Lilju eru sifjaréttur þ.e. forsjármál, skilnaðarmál og barnaverndarmál en auk þess málflutningur fyrir dómi, ýmis verkefni á sviði erfðaréttar, skiptastjórn þrota- og dánarbúa og öll almenn lögfræðileg ráðgjöf. Lilja hefur að mestu starfað á starfsstöð OPUS lögmanna í Borgarnesi og með þessari breytingu mun hún sjá um rekstur þeirrar starfsstöðvar.