Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hefur verið kjörin varaformaður Framsóknarflokksins á flokksþingi sem fram fór í Háskólabíó í dag.

Lilja hlaut 392 atkvæði eða 95,8% atkvæða. 408 greiddu atkvæði alls, en Eygló Harðardóttir kom næst með 7 atkvæði þrátt fyrir að hafa dregið framboð sitt til baka. Guðmundur Baldvin Guðmundsson, Gunnar Bragi Sveinsson og Elsa Lára Arnardóttir hlutu eitt atkvæði hvor.

Fyrr í dag var Sigurður Ingi Jóhannsson kjörinn formaður og hafði hann betur í baráttunni við Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Forysta Framsóknarflokksins hefur þannig verið endurnýjuð fyrir komandi kosningar þann 29. október.