Lilja Dögg Stefánsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri SagaMedica og hefur störf 1. nóvember. Hún tekur við starfinu af Perlu Björk Egilsdóttur sem hefur verið hjá félaginu frá 2008 fyrst sem markaðsstjóri og frá 2013 sem framkvæmdastjóri.

Lilja Dögg hefur víðtæka reynslu úr lyfjageiranum. Undanfarin tvö ár hefur hún verið markaðsstjóri lyfjafyrirtækisins Pfizer á Íslandi. Áður starfaði hún hjá Actavis í tæp 11 ár og var síðast búsett í Sviss þar hún starfaði sem forstöðumaður sölu- og markaðssviðs með ábyrgð á Mið-Austurlöndum, Afríku og Asíu. Þá hefur Lilja Dögg einnig gegnt stöðu sölu- og markaðsstjóra Actavis á Íslandi.

„Ég hlakka til að takast á við nýjar áskoranir hjá SagaMedica og að fá tækifæri til að fylgja eftir þeirri nýsköpunarvinnu sem þar hefur verið unnin," er haft eftir Lilju Dögg í fréttatilkynningu. „SagaMedica er áhugavert og spennandi fyrirtæki sem er frumkvöðull á sviði rannsókna, þróunar og framleiðslu náttúruvara úr íslenskum jurtum. SagaPro, ein vinsælasta vara SagaMedica, er til að mynda fyrsta íslenska náttúruvaran sem gengist hefur undir klíníska rannsókn."