Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, segist ekki ætla að bjóða sig fram sem formann Framsóknarflokksins gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni þó hún búist við að boðað verði til miðstjórnarfundar hjá flokknum í ágúst. Þetta kom fram í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Lilja tók sæti í ríkisstjórn Íslands sem utanríkisráðherra þann 7. apríl síðastliðinn í kjölfar Panama-hneykslisins. Páll Magnússon spurði hana út í stöðu Sigmundar Davíðs er þau ræddu saman á Bylgjunni.

„Það kæmi mér ekki á óvart ef það væri miðstjórnarfundur nú í ágúst eða svo. Það sem er að gerast núna er að Sigmundur er að tala við flokksmenn um land allt. Ég held að þau samtöl gangi bara vel fyrir sig,“ sagði Lilja, en þvertók fyrir að hún myndi bjóða sig fram gegn sitjandi formanni, sem hyggst leiða flokkinn áfram.

Þá segist Lilja ekki hafa ákveðið hvort hún sækist eftir þingsæti í komandi kosningum.