Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, gagnrýndi harðlega á Alþingi í dag efnahagsáætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda og þar með þá stefnu sem fjárlagafrumvarpið byggir á. Hún telur of bratt að ná niður ríkishallanum á þremur árum.

Lilja segir í samtali við Viðskiptablaðið að hún vilji að gerðar verði töluverðar breytingar á fjárlagafrumvarpinu í meðförum þingsins. Fleiri innan stjórnarliðsins séu þeirrar skoðunar „enda var ekki haft mjög mikið samráð við stjórnarliða við gerð [frumvarpsins]," segir hún. „Frumvarpið mótast meira af AGS en áherslum stjórnarliða," bætir hún við.

Þegar hún er spurð, hvort hún sé ekki með gagnrýni sinni, að beina spjótum sínum að Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra og formanni VG, svarar hún: „Nei, miklu fremur að AGS."

Felst ekki í þessu líka gagnrýni á Steingrím J? „Nei, ég hafði ekki hugsað þetta þannig. Við Steingrímur höfum tekist á um þessa stefnu og  höfum ólíkar skoðanir á henni."

Hótar ekki stjórnarslitum

Lilja minnir á að hún hafi frá upphafi verið gagnrýnin á samstarfið við AGS og efnahagsáætlun hans. Það myndi þýða hátt vaxtastig og þar með dýpri kreppu. „Það kom fram í ræðu minni [í dag] að ég tel að efnahagsáætlunin eigi að vera síbreytileg og taka mið af aðstæðum. Ég tel að nú sé kominn sá tímapunktur að endurskoða þurfi áætlunina."

Hún segir að í ljósi Icesave-málsins sé AGS alls ekki að sinna því hlutverki sínu að tryggja að skuldir þjóðarbúsins, eftir efnahagshrunið, verði sjálfbærar. AGS sé ekki að tryggja efnahagslega velferð í landinu.

Þá gagnrýnir hún harðlega, sem fyrr segir, að ná eigi niður ríkishallanum á þremur árum. Sú leið muni dýpka kreppuna enn frekar - með fleiri gjaldþrotum og auknu atvinnuleysi. „Gjaldþrota fyrirtæki og atvinnulausir einstaklingar eru tapaður auður," segir hún.

„Ég vil taka þennan niðurskurð á lengra tímabili - jafnvel á fimm árum - þó svo það muni þýða hægari hagvöxt."

Innt eftir því hvernig hún hyggist fylgja þessum orðum eftir, segir hún að orð séu til alls fyrst. Fjármálaráðherra sé vel kunnugt um þessa afstöðu sína og að hún hafi einnig komið henni á framfæri í efnahags- og skattanefnd þingsins.

Spurð hvort hún telji að meirihluti sé fyrir fjárlagafrumvarpinu á Alþingi eins og það líti út núna, svarar hún: „Ég veit það ekki."

Hún bætir því við að markmið sitt sé að fá fólk til að hugsa „frekar en að hóta ríkisstjórnarslitum."