Lilja Mósesdóttir, hagfræðingur hefur ákveðið að bjóða sig fram til starfa fyrir Vinstrihreyfinguna  - grænt framboð og sækist eftir 2. sæti í forvali VG í Reykjavík.

Í tilkynningu frá Lilju segist hún vera að svara kalli fólksins í landinu um endurnýjun á sem flestum sviðum samfélagsins.

„Ég tel að menntun mín og starfsreynsla á sviði efnahags-, atvinnu- og velferðarmála sé góður grunnur fyrir endurreisnarstarfið sem framundan er í íslensku samfélagi,“ segir Lilja.

„Slíkt endurreisnarstarf þarf að byggja á nýjum gildum, gagnsæi, fagmennsku og lýðræðislegum vinnubrögðum í atvinnulífinu, stjórnsýslunni og stjórnmálum. Fjármálakreppan hefur opinberað nauðsyn þess að gert verði upp við tímabil sérhagsmuna og gegndarlausrar einstaklings- og neysluhyggju. Brýnt er að þessar aðstæður verði nýttar til að koma hér á samfélagi, þar sem lögð er áhersla á samstöðu og réttláta skiptingu byrðanna sem fjármálakreppan hefur og mun leggja á fólkið í landinu. Áherslur mínar og framtíðarsýn ríma vel við meginstefnumál Vinstrihreyfingarinnar  - græns framboðs um jöfnuð, kvenfrelsi, frið og sjálfbæra þróun. Það er mikilvægara en nokkru sinni að slíkar áherslur leiði okkur inn í framtíðina.“

Lilja er með doktorspróf í hagfræði frá Bretlandi og hef starfað sem hagfræðingur og háskólakennari hér á landi og erlendis. Undanfarin ár hefur hún m.a. starfað sem prófessor við Háskólann á Bifröst, hagfræðingur ASÍ, ráðgjafi fyrir Grænlensku heimastjórnina og sem sérfræðingur við Háskólann í Luleaa í Svíþjóð.

Hún hefur tekið þátt í og stjórnað umfangsmiklum evrópskum rannsóknarverkefnum á sviði vinnumarkaðs- og velferðarmála en auk þess setið í stjórn fyrirtækis og í stjórn norrænnar rannsóknarstofnunar ásamt því að hafa átt sæti í ýmsum nefndum á vegum hins opinbera.

Maki Lilju er Ívar Jónsson, forstöðumaður þjóðdeildar Landsbókasafnsins, og sonur þeirra er Jón Reginbaldur, menntaskólanemi. Ég ólst upp í Grundarfirði en bý ásamt fjölskyldu minni í Breiðholtinu í Reykjavík.