Lilja Mósesdóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í umræðum á Alþingi í dag að við yrðum að losna undan Alþjóðagjaldeyrissjóðnum „með eða án Norðurlandanna," bætti hún við.

„Þetta snýst um sjálfstæði komandi kynslóða og náttúruauðlindir þjóðarinnar," sagði hún enn fremur og úr salnum heyrðust einstakir þingmenn hrópa: „Heyr, heyr!"

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, kom því næst í pontu og tók undir með Lilju. Hann sagði að AGS hefði valdið Íslandi óbærilegu tjóni. Tími væri kominn til að vísa þeim heim.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði á hinn bóginn að við réðum því að sjálfsögðu hvort AGS væri hér eða færi. Við hefðum hins vegar ekki séð neinar aðrar betri lausnar fyrir Ísland.

Hún gæti vitnað í marga hagfræðinga sem hefðu sagt að nauðsynlegt væri, að minnsta kosti um stund, að vera í samstarfi við AGS.