Lilja Birgisdóttir hefur verið ráðin samskiptastjóri Sýnar og hefur þegar hafið störf. Undir samskiptamál falla meðal annars samskipti við fjölmiðla og fjárfesta sem og innri samskipti hjá félaginu. Sýn greinir frá þessu í fréttatilkynningu.

Sýn á og rekur vörumerkin Vodafone, Stöð 2, Stöð 2 Sport, Vísi,  Bylgjuna, FM957 og X977.

Lilja hefur 10 ára reynslu sem stjórnandi og sérfræðingur hjá Arion banka, Sjóvá og Íslenskum verðbréfum. Hún hefur unnið fjölbreytt störf í fjármálageiranum sem snúa meðal annars að stefnumótun, þjónustustjórnun, breytingastjórnun og þjálfun starfsfólks. Lilja er með B.Sc í alþjóðamarkaðsfræðum frá Háskólanum í Reykjavík.

„Sýn er félag sem starfar í lifandi samkeppnisumhverfi þar sem áhugaverð verkefni og tækifæri eru framundan," er haft eftir Lilju í tilkynningunni.