„Ég tel að draga verði úr þeim hörðu markaðslögmálum sem einkennt hafa kvótakerfið síðustu 20 árin og leitt afa til mikils fjármagnsflutnings úr greininni í óskyldan rekstur og brask,“ sagði Lilja Rafney Magnúsdóttur, varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis á morgunfundi Arion Banka um stöðu og framtíð íslensks sjávarútvegar.

„Einnig hefur átt sér stað mikil samþjöppun aflaheimilda á fárra manna hendur sem leitt hefur til mikillar byggðaröskunar og tekjumissis, bæði íbúa og sveitarfélaga sem mörg hver hafa orðið illa fyrir barðinu á sérhagsmunahyggju í nafni lögmála markaðarins.“

Lilja Rafney sagðist telja að með grundvallarbreytingum á kvótakerfinu væri verið að stíga gæfuspor til réttlátari og heilbrigðara fiskveiðistjórnunarkerfis sem taki mið af heildarhagsmunum í stað sérhagsmuna.