Síðastliðin þrjú ár hefur gámaútflutningur á óunnum fiski aukist hröðum skrefum. Arnar Atlason, formaður Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda, segir að staðreyndin sé sú að 50-65% alls þess fisks sem fer úr landi óunninn komi frá handhöfum veiðiheimildanna, útgerðarmönnunum sjálfum. Á síðasta ári hafi farið 22.500 tonn af fisk úr landi óunninn sem kom aldrei til uppboðs heldur seldur beint úr landi af handhafa veiðiheimildanna. Þetta magn var komið í 17.000 tonn í upphafi ágúst samkvæmt tölum frá Fiskistofu.

„Það er líka aukning í útflutningi á óunnum fisk sem keyptur er á fiskmarkaði og fluttur út í gámum. Það er góðra gjalda vert að atvinnumálanefnd Alþingis hafi tekið þetta mál upp þótt sjávarútvegsráðherra skelli skollaeyrum. Hann lýsti því yfir degi fyrir fund atvinnumálanefndar að hann hygðist ekki bregðast við þessu,“ segir Arnar.

Hann segir að leiða megi líkum að því að það sé að fara úr landi ferskur óunninn fiskur sem er um tíu milljarða króna virði á hverju ári. Verðmætaaukningin við vinnslu hér heima ætti að geta verið að lágmarki 20% og jafnvel 40%. Greinin verði því af verðmætasköpun upp á 2-4 milljarða á ári vegna gámaútflutningsins.

Arnar segir að það yrði strax stórkostleg bragarbót ef sá fiskur sem aldrei er boðin til sölu hér innanlands en einungis fluttur út í gámum yrði fyrst boðinn upp innanlands. Helmingur gámafisksins sé aldrei boðinn upp og þannig hafi það verið á undanförnum árum.

„Það er um það bil einn starfsmaður á bak við hver 100 tonn. Fari 50.000 tonn óunnin úr landi tapast 500 störf í fiskvinnslu og þó væntanlega mun fleiri með meiri verðmætasköpun úr auðlindinni.“

Fleiri en eitt ráðuneyti

Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, segist vilja bregðast við þessu ástandi og er þessa dagana að taka saman greinargerð sem send verði ríkisstjórn innan tíðar.

„Ég er að vinna í því að draga saman þær áhyggjur sem hafa komið fram eftir þessa fundi sem atvinnuveganefnd hefur átt með ýmsum hagsmunaaðilum.“

Atvinnuveganefnd hefur í þessari viku og síðustu átt nokkra fundi þar sem farið var yfir þessi mál, þar á meðal fund síðastliðinni þriðjudag sem opinn var fjölmiðlum eins og greint var frá í Fiskifréttum í síðustu viku.

Þar kom fram að íslensk fiskvinnslufyrirtæki eiga erfitt með að fá á mörkuðum þann fisk sem þau þurfa til starfseminnar.

Lilja segist nú, að loknum þessum fundarhöldum, vera að „draga upp þau atriði sem ég tel rétt að tekin verði til skoðunar í þeim ráðuneytum sem hlut eiga að máli. Þau eru fleiri en eitt.“

Þetta stangast óneitanlega á við það sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði á RÚV í síðustu viku. Hann sagði þar að ekki sé að vænta neinna aðgerða á vegum ráðuneytisins á næstunni.

Samkeppnisstöðuna sagði hann ekki vera neitt verri í dag en hún hefur verið, en vissulega hafi hann áhyggjur af því að kjör fiskvinnslufólks rýrni og störf tapist.

„Þetta eru ekki bara störf heldur er þetta gríðarlegt byggðamál,“ sagði Aðalsteinn Baldursson, formaður Framsýnar, á opna fundinum í síðustu viku. „Það besta sem Alþingi getur gert er að skapa þessum fyrirtækjum rekstrarskilyrði til að geta rekið sig víða um land. Það þarf ekkert meira.“

[email protected]

[email protected]