Seðlabankastjóri hefur sagt að samningur við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn verði mögulega framlengdur. Þetta sagði Lilja Mósesdóttir á blaðamannafundi í dag sem haldinn var vegna úrsagnar hennar og Atla Gíslasonar úr þingflokki Vinstri grænna. Hún sagði að samstarf við AGS væri ein af ákvörðunum ríkisstjórnar sem hún geti ekki stutt. Lilja vill hætta samstarfi við sjóðinn.

Lilja sagði mikilvægt að lækka raunvexti í 2% og ráðast í almennar aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Aðspurð um skattastefnu sagði Lilja að mjög þungar byrgðar hafi verið lagðar á millitekjuhópa og lágtekjuhópa en telur enn vera svigrúm til að leggja frekari skatta á hátekjuhópa.

Lilja er formaður viðskiptanefndar Alþingis og Atli er formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar. Þau töldu líklegt að óskað verði eftir því að þau víki sem formenn en ákvörðun liggi ekki fyrir.