Lilja Skaftadóttir og Reynir Traustason eru nú stærstu hluthafar í DV ehf, nýju félagi sem keypt hefur rekstur DV og dv.is af Hreini Loftssyni og fyrirtæki hans Birtingi.

Í tilkynningu frá nýjum eigendum kemur fram að hið nýja félag mun hafa nægt fé til að styðja við reksturinn og koma blaðinu í gegnum tímabundinn samdrátt á auglýsingamarkaði.

Þá kemur fram að takmörk verða sett á áhrif eigendavalds á DV, en í samþykktum hins nýja félags er kveðið á um að enginn einn hluthafi geti farið með meira en 26% atkvæða, óháð hlutafjáreign.

Fram kemur að eigendaskiptin á DV fara fram nú um mánaðamótin. Gerður hefur verið tímabundinn samningur við Birting um leigu húsnæðis og vissa stoðþjónustu. Rekstur blaðsins verður að öðru leyti óbreyttur og tíðni útgáfudaga verður hin sama. Ritstjórar verða áfram Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson og gert er ráð fyrir að þeir blaðamenn sem starfað hafa á ritstjórn DV haldi áfram störfum fyrir blaðið.

Sem fyrr segir eru stærstu hluthafarnir í DV ehf. þau Lilja og Reynir, en nokkrir leggja fram lægri upphæðir, auk þess sem starfsmönnum verður gert kleift að eignast hlut í blaðinu. Fram kemur í tilkynningunni að hluthafahópurinn verður kynntur nánar í DV strax eftir páska en auk þess er gert ráð fyrir að nákvæm skrá yfir hluthafa blaðsins verði aðgengileg á vefnum dv.is. Þá er kaupverðið sagt vera trúnaðarmál.

„Kaupunum er ætlað að tryggja útgáfu á frjálsu og óháðu dagblaði og fréttavef í dreifðri eignaraðild. DV mun ekki taka afstöðu með ákveðnum stjórnmálaflokkum eða viðskiptablokkum,“ segir í tilkynningunni

Lilja var þó í framboði fyrir Borgarahreyfinguna í síðustu alþingiskosningum. Hún sagði sig þú úr stjórn Borgarahreyfingarinnar í ágúst sl. Auk þess á Lilja um 22% hlut í Smugunni, vefriti Vinstri grænna og er þar með stærsti einstaki hluthafi vefritsins. Aðeins flokkurinn sjálfur, VG, á stærri hlut, eða um 36% en aðrir hlutir skiptast á milli formanns, þingmanna og starfsmanna VG.