Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, skrifar í aðsendri grein í Morgunblaðið að mikilvægt sé að leysa sjómannadeiluna án lagasetningar. Hún telur að sjómannadeilan eigi að vera forgangsefni stjórnvalda og það þurfi að meta þjóðhagslega tjónið strax. Lilja gerir þetta einnig að umfjöllunarefni á Facebook-síðu sinni.

„Sjómenn og fjölskyldur þeirra finna verulega fyrir verkfallinu sem hefur staðið yfir í sjö vikur,“ skrifar Lilja í greininni. Hún sakar ríkisstjórnina fyrir það að vera óundirbúin og gagnrýnir hana fyrir að hafa ekki látið meta hve mikið þjóðhagslegt tjón hlýst af deilunni.

Lilja bætir við: „Ríkisstjórnin getur ekki látið reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsins er í lamasessi og veldur þjóðarbúinu ómældu tjóni.“