Lilja Dögg Alfreðsdóttir mun taka við embætti utanríkisráðherra af Gunnari Braga Sveinssyni. Gunnar Bragi mun þá gegna embætti landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í nýuppstokkaðri ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir þessu.

Ríkisráðsfundur verður haldinn síðar í dag á Bessastöðum. Þá mun forsætisráðuneyti undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar taka við af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, en eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær kynntu stjórnarflokkarnir áframhaldandi samstarf undir breyttum ráðherrastöðum Framsóknar.

Lilja Dögg hefur starfað sem aðstoðarframkvæmdastjóri skrifstofu seðlabankastjóra, auk þess sem hún var ráðin sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu frá 2014 til 2015. Lilja er framsóknarmaður en auk þess er hún dóttir Alfreðs Þorsteinssonar, sem starfaði forðum sem borgarfulltrúi Framsóknar.