Límtré hf. hefur ákveðið að draga sig út úr erlendum verkefnum sínum, en félagið hefur undanfarin ár fjárfest í og byggt upp límtrésverksmiðjur í Rúmeníu og Portúgal.

Að sögn Þorsteins Víglundssonar, forstjóra BM Vallár, er það mat nýrra eigenda að ekki sé tilefni til að halda áfram þessum verkefnum, þar sem markaðir og efnahagsástand í þessum löndum eigi langt í land með að mæta þeim kröfum sem gera þarf til slíkrar uppbygginar og fjárfestingar. BM Vallá keypti mestallt hlutafé Límtrés á síðasta ári.

"Þegar við keyptum Límtré vorum við fyrst og fremst að horfa á innlenda starfsemi þess, sem hefur gengið mjög vel og verið í mjög góðum rekstri. Við horfðum til erlendu verkefnanna með þeim hætti að ef eitthvað kæmi út úr þeim væri það gott, en við áttum í sjálfu sér ekki von á því. Við töldum okkur sjá að þau væru í vanda sem yrði ekki auðleystur og vildum ekki eyða okkar kröftum í, né miklu viðbótarfjármagni sem kæmi bara niður á innlendu kjarnastarfseminni" sagði Þorsteinn.

Límtré stóð fyrir stofnun verksmiðju Flexilam í norðurhluta Portúgal fyrir nokkrum árum og var verksmiðjan vígð árið 2003. Þorsteinn sagði að efnahagsástandið hefði ekki verið hagstætt í Portúgal og eftir nokkrar tilraunir til að selja verksmiðjuna hefði verið ákveðið að loka henni um síðustu áramót.

"Við töldum að þessi starfsemi væri ekki að ganga upp og þyrfti verulega aukna fjármuni til að reyna komast fyrir vind með rekstur þessarar verksmiðju. Við vorum ekki tilbúnir til að ráðast í slíka fjárfestingu á þessari stundu enda töldum við ósennilegt að hún myndi skila sér," sagði Þorsteinn.

Í borginni Targoviste í Rúmeníu hefur Límtré verið þátttakandi í uppbyggingu á límtrés- og einingaverksmiðju í samstarfi við danskt límtrésfyrirtæki og danskan fjárfestingasjóð. Límtrésframleiðandinn danski keypti fjárfestingasjóðinn út á síðasta ári og náði þar með meirihlutayfirráðum yfir fyrirtæknu, en rekstur þess hefur ennþá ekkert komist á rekstrarhæfan grunn. Límtré á þar enn tæplega 25% eignarhlut en að sögn Þorsteins verður ekki sett inn nýtt fjármagn í það verkefni. "Við horfum ekki til Rúmeníu sem framtíðarstaðsetningar," sagði Þorsteinn.