Hömlur ehf., dótturfélag Landsbankans (NBI hf.) hefur falið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans að annast sölu á öllu hlutafé í iðnfyrirtækinu Límtré Vírnet ehf.

Starfseiningar Límtrés Vírnets, Vírnet í Borgarbyggð, Límtré á Flúðum og Yleiningar í Reykholti, voru hluti af samstæðu BM Vallár hf. sem tekin var til gjaldþrotaskipta í maí 2010. Nýstofnað rekstrarfélag í eigu Landsbankans keypti starfseiningar Límtrés Vírnets af þrotabúi BM Vallár hf. og lýsti því jafnframt yfir að Landsbankinn hygðist selja reksturinn innan 6 mánaða.

Söluferlið hófst 29. september 2010 og er opið öllum áhugasömum fjárfestum, sem sýnt geta fram á fjárfestingargetu umfram 250 milljónir króna samkvæmt tilkynningu á heimasíðu Landsbankans. Þeir fjárfestar sem óska eftir að taka þátt ber að fylla út trúnaðaryfirlýsingu og eyðublað fyrir fjárfesta, leggja fram fullnægjandi staðfestingu á áðurnefndri fjárfestingargetu og sýna fram á viðeigandi þekkingu og reynslu af fjárfestingum og rekstri.

Byggir á gömlum fyrirtækjum

Límtré Vírnet ehf. er fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu fyrir innlendan byggingariðnað og hefur einnig selt hluta af framleiðsluvörum sínum á Færeyjamarkaði. Það byggir á rekstri tveggja fyrirtækja, Vírneti sem var stofnað 1956 og Límtré sem stofnað var 1982.

Aðalstöðvar Límtrés Vírnets ehf. eru í Borgarnesi og þar eru framleiddar klæðningar, áfellur og saumur, auk þess sem þar er blikksmiðja, járnsmiðja og rafmagnsverkstæði. Á Flúðum er límtrésverksmiðja félagsins, í Reykholti er yleiningaframleiðsla en söluskrifstofa og lager eru í Kópavogi auk hluta yfirstjórnar og skrifstofuhalds.