Stjórn Límtré Vírnets hefur gengið frá ráðningu Stefáns Árna Einarssonar í stöðu forstjóra Límtrés Vírnets. Stefán tekur við starfinu af Stefáni Loga Haraldssyni sem verið hefur framkvæmdastjóri fyrirtækisins frá árinu 1999.

Stefán Árni hefur starfað hjá Húsasmiðjunni frá árinu 2007, fyrst sem framkvæmdastjóri innkaupa- og vörustýringarsviðs og frá árinu 2012 sem framkvæmdastjóri fagsölusviðs. Áður starfaði Stefán Árni sem framkvæmdastjóri innkaupadeildar ÍAV frá 2004-2007, framkvæmdastjóri verktakafyrirtækisins Gamlhús 2002-2004 og þar áður framkvæmdastjóri Bílanausts frá 2000-2002.

Stefán Árni lauk námi í byggingatæknifræði frá Tækniskóla Íslands árið 1997 og meistaragráðu í byggingaverkfræði frá Lunds Tekniska Högskola í Svíþjóð árið 1991 með framkvæmdastjórn og áætlunargerð sem sérsvið. Stefán er giftur Sigurrós Ragnarsdóttir, félagsráðgjafa og eiga þau saman 4 börn.

Um Límtré Vírnet - flutningur í nýjar höfuðstöðvar

Límtré Vírnet er íslenskt iðnfyrirtæki með áratuga reynslu í framleiðslu og sölu á hágæða vörum fyrir íslenskan byggingariðnað, svo sem límtrésburðarvirki, steinullareiningar, klæðningarstál- og ál, milliveggjastoðir, þakrennukerfi, bílskúrs- og iðnaðarhurðir, loftræstivörur og járnabindingarvörur, svo eitthvað sé talið.

Starfsstöðvar Límtré Vírnets eru á þremur stöðum á landinu og byggja þær á áratuga löngum framleiðsluferlum.  Starfstöðvarnar eru á höfuðborgarsvæðinu, í Borgarnesi og á Flúðum.  Fyrirtækið er nú um þessar mundir að flytja starfsemi sína, á höfuðborgarsvæðinu, í nýjar höfuðstöðvar að Lynghálsi 2, í Reykjavík.