Límtré Vírnet ehf. hefur gengið frá kaupum á fyrirtækinu Fagtúni ehf. Fyrirtækið kaupir allt hlutafé Fagtúns ehf. af eigendunum Bjarna Axelssyni og Hallgrími Axelssyni. Fagtún ehf. mun fyrst um sinn verða rekið áfram í óbreyttri mynd. Engar breytingar á starfsmannahaldi eru fyrirhugaðar fyrst um sinn þó svo þessi viðskipti hafi átt sér stað, en hjá fyrirtækinu starfa 15 starfsmenn. Það var fyrirtækjaráðgjöf KPMG sem hafði umsjón með kaupunum.

Fagtún ehf. var stofnað vorið 1980 og hefur alla tíð sérhæft sig í frágangi á þakdúkum. Frá upphafi hefur Fagtún ehf. haft náið samstarf við norska fyrirtækið Protan AS. sem hefur verið brautryðjandi í framleiðslu og lagningu þakdúka á öllum norðurlöndunum. Sameiginlega hafa fyrirtækin ábyrgst framkvæmd verka og gildir það bæði um efni og vinnu. Protan þakdúkar og vatnsvarnarlög eru vottuð samkvæmt ISO 9001 staðlinum. Fagtún ehf. hefur einnig selt og sett upp Lett Tak þakeiningar. Mikill styrkur og hátt einangrunargildi gerir Lett Tak einingar hentugar á norðlægum slóðum.

Með kaupum sínum á Fagtúni ehf. er Límtré Vírnet ehf. að nálgast enn frekar markmið sín að veita byggingariðnaðnum góðar heildarlausnir segir í frétt fyrirtækisins. Límtré Vírnet ehf. hefur verið ráðandi á íslenskum byggingamarkaði þegar kemur að klæðningum úr stáli eða áli á þök og veggi. Vörur Fagtúns ehf. eru kærkomin viðbót og falla einstaklega vel að núverandi vöruframboði og þjónustu Límtré Vírnets ehf., sem rekur verksmiðjur á Flúðum, Reykholti í Bláskógabyggð og Borgarnesi. Byggingasvið fyrirtækisins er í Reykjavík og innflutningsdeild í Garðabæ. Um næstu áramót mun Límtré Vírnet ehf. sameina starfstöðvar sínar á höfuðborgarsvæðinu í húsnæði að Gylfaflöt 9 í Grafarvogi.