Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) gæti þurft að lána allt að 750 milljónum króna umfram það sem hann hefur til útlána. Guðrún Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri LÍN, segir í samtali við Morgunblaðið í dag í kjölfar þess að Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) vann mál í Héraðsdómi Reykjavíkur gegn sjóðnum á föstudag þar sem dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að óheimilt sé að breyta úthlutunarreglum LÍN á næsta skólaári. Breytingin fólst í því að krafa var gerð um að námsmaður ljúki fleiri en 18 ECTS-einingum á hverju misseri eða samsvarandi hlutfalli á önn í fjórðungaskólum, til að eiga rétt á námsláni.

Guðrún segir að þegar hafi verið farið yfir allar leiðir til sparnaðar og að nú blasi við tap á rekstri sjóðsins sem ríkið þurfi að bæta. Hún segir að niðurstaða héraðsdóms hafi komið sér á óvart og gerir ráð fyrir því að málinu verði áfrýjað. Þá segir Guðrún niðurstöðuna geta haft mjög slæmt fordæmisgildi í stjórnsýslunni.

„Ef þjónustuþegar geta farið í dómsmál við þjónustuveitanda í hvert skipti sem þeim mislíkar eitthvað, þá spyr maður sig hvernig það muni enda,“ segir hún í samtali við blaðið.

María Rut Kristinsdóttir, formaður SHÍ, fagnar niðurstöðu dómsins enda hafi þónokkrir nemendur velt því fyrir sér hvort þeir geti sótt um nám í HÍ í haust þar sem fyrirvarinn á reglubreytingum LÍN var svo lítill. Hún bendir á að SHÍ hafi komið fram með ýmsar tillögur að sparnaði í stað þeirrar útfærslu sem ákveðið var að fara með breyttum úthlutunarreglum en fengið þau svör að ekki væri tími til að fara yfir útreikningana. Hún vonast til að nú verði farið yfir tillögurnar.