Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar birt drög að nýjum lögum um námslánakerfi. Með frumvarpinu er lagt til að innleitt verði nýtt námsstyrkjakerfi samhliða námslánakerfi. Inn á samráðsgáttinni segir markmiðið með nýju kerfi sé að ganga skrefinu lengra í átt að því að tryggja hagsmuni námsmanna á Íslandi betur en gert hefur verið. Verði frumvarpið að lögum mun það leysa af hólmi gildandi lög um Lánasjóð íslenskra námsmanna (LÍN).

Helsta breytingin sem lögin fela í sér er að nafni sjóðsins verður breytt úr Lánasjóði íslenskra námsmanna í Stuðningssjóð íslenskra námsmanna. Þá munu lánþegar sem ljúka prófgráðu innan tilgreinds tíma geta fengið námsstyrk sem nemur 30% af höfuðstól námsláns þeirra. Styrkurinn verður í formi niðurfellingar sem mun koma til framkvæmda að námi loknu. Þar að auki munu lánþegar í fyrsta skipti gera valið við námslok hvort skuldabréf þeirra endurgreiðist sem verðtryggt eða óverðtryggt. Þessu til viðbótar gert ráð fyrir að afborganir námslána ásamt álagi standi að fullu undir lánveitingum sem SÍN veitir.

Hér má sjá aðrar helstu breytingar sem frumvarpið felur í sér. Hægt verður að skila inn umsögnum um frumvarpið til 9. ágúst næstkomandi

Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:

„Þetta er róttæk breyting á núverandi fyrirkomulagi sem mun stuðla að lægri skuldsetningu námsmanna að námi loknu. Þetta er mikilvægt skref í þá átt að bæta kjör og aðstæður námsmanna líkt og fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Nýtt námsstyrkjakerfi mun stuðla að bættri námsframvindu háskólanema, og þar með aukinni skilvirkni og betri nýtingu fjármuna í menntakerfinu.  Námsaðstoð ríkisins verður gagnsærri, staða þeirra námsmanna sem þurfa á frekari styrkjum að halda sökum félagslegra aðstæðna verður efld og jafnræði mun aukast milli námsmanna. Þá veitir nýja fyrirkomulagið lánþegum meira frelsi til að velja hvernig þeir haga sínum lánamálum,“