Í morgun kom fyrsta sending af alls kyns bakkelsi frá hinu sögufræga Gamla bakaríi á Ísafirði í verslunina Rangá í Skipasundi.

Það vakti mikla athygli þegar fréttir bárust um þetta samstarf enda margir brottfluttir Vestfirðingar sem gera sér skylduferð í Gamla bakaríið þegar farið er á heimaslóðir.

Um tuttugu tegundir komnar

„Það eru komnar einhverjar tuttugu tegundir alla vega. Þetta hefur fengið góðar viðtökur,“ segir Konráð Sveinsson starfsmaður í versluninni en ákvörðunin var tekin eftir að verslunin byrjaði fyrir nokkrum vikum að selja hinar þekktu linu kringlur frá bakaríinu.

„Í fyrsta lagi þá vantaði linar kringlur, alveg númer eitt, en þær fengust hvergi.

Þá fórum bara að leita og fundum þær í Gamla bakaríinu eftir ábendingu frá viðskiptavinum.

Þeim líkaði svo vel að fá vörur þaðan þannig að þá var farið að kaupa meira þaðan.“

Napaleónskökur og kókoslengjurnar frægu

Aðspurður hvort hinar þekktu Napaleónskökur Gamla bakarísins séu meðal þeirra sem eru á boðstólum svarar Konráð því játandi.

„Já já, og kókoslengjurnar og þetta vinsæla allt saman. Svo verður það bara viðskiptavinurinn sem ræður því hvað stendur upp úr,“ segir Konráð og vísar þá í það að vöruflokkunum gæti fækkað þegar í ljós kemur hvað reynist vinsælt.

„Kúnninn náttúrulega ræður, við ráðum þessu ekkert. Það er þegar búið að vera mikið að vera í þessu, og einmitt mikið fólk að vestan og þeir sem eiga ættir að rekja þaðan og svoleiðis.“