Auglýsingastofan Brandenburg hefur ráðið Lindu Dögg Hlöðversdóttur sem birtingastjóra en hún hefur yfirumsjón með birtingum, birtingaráðgjöf, markhópagreiningum og gerð birtingaáætlana. Auk Lindu hafa Alda Júlía Magnúsdóttir, Benedikt Hauksson og Jón Oddur Guðmundsson bæst í hóp starfsfólks Brandenburgar.

Síðastliðin fimm ár gegndi Linda Dögg Hlöðversdóttir stöðu birtingastjóra á Ratsjá. Áður starfaði hún um fimm ára skeið í London, m.a. sem verkefnastjóri netbirtinga hjá OMD International, sem er með 140 skrifstofur í 80 löndum og partur af Omnicom mediagroup.

Þá starfaði Linda hjá MEC GS London þar sem hún sá um gerð alþjóðlegra birtingaáætlana og hafði umsjón með netbirtingum vörumerkja eins og Colgate, Chanel, VISA, Skype, Pepsi, og Sony. Linda er með meistaragráðu í sálfræði frá London School of Economics.

Alda Júlía Magnúsdóttir starfar með Lindu í birtingadeild, sem birtingamiðlari. Áður starfaði hún hjá Nova og Nordic Style Magazine. Alda stundaði nám í Amsterdam Fashion Institute og er að ljúka meistaranámi í nýsköpun og viðskiptaþróun í Háskóla Íslands.

Alda Júlía Magnúsdóttir
Alda Júlía Magnúsdóttir
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Benedikt Hauksson er nýr viðskiptastjóri á Brandenburg. Hann var áður viðskiptastjóri hjá hönnunarstofunni Döðlur frá árinu 2013. Benedikt starfaði um árabil í London sem markaðsráðgjafi á Isobar markaðsstofu þar sem hann vann m.a. að stafrænni stefnumótun Adidas, Budweiser, Kellogg's, Royal Bank of Scotland og Toyota. Benedikt er með BA gráðu frá UAL í London í auglýsinga- og markaðsfræði og MA í Digital Management frá HI í Stokkhólmi.

Benedikt Hauksson
Benedikt Hauksson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Texta- og hugmyndasmiðurinn Jón Oddur Guðmundsson hóf störf á Brandenburg í september síðastliðnum. Jón Oddur lauk BA námi í rússnesku í Háskóla Íslands árið 1997 og hóf störf á Mættinum og dýrðinni auglýsingastofu sama ár. Síðan þá hefur Jón Oddur starfað á Fíton, Janúar og Pipar\TBWA og sinnt þar hugmynda- og textavinnu fyrir fjölda fyrirtækja.

Jón Oddur Guðmundsson
Jón Oddur Guðmundsson
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Á nokkrum árum hefur landslagið gjörbreyst og nú taka stafrænir miðlar sífellt til sín stærri sneið af kökunni. Í allri hugmyndavinnu höfum við alltaf lagt áherslu á að nýta okkur þá stafrænu miðla sem í boði eru, í bland við þá hefðbundnu. Við fengum fimm tilnefningar og tvenn verðlaun á síðustu SVEF-verðlaunum fyrir vefi og stafræna markaðssetningu sem var skemmtilegt og hvatning til að gera enn betur á þessu sviði,“ segir Ragnar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Brandenburgar.

„Við vorum valin auglýsingastofa ársins 2017 af ÍMARK og því mikilvægt að hafa allar stöður vel mannaðar. Við höfum verið svo lánsöm að viðskiptavinum okkar hefur fjölgað og má nefna Íslandsbanka og Lyfju sem nýja og spennandi viðskiptavini. Þessir nýju starfsmenn eru því kærkominn liðsauki enda verkefnin mörg og krefjandi.“