Marel hefur tilkynnt um breytingar á framkvæmdastjórn félagsins sem taka gildi frá og með deginum í dag. Linda Jónsdóttir, sem hefur gengt starfi fjármálastjóra í átta ár, tekur nú við sem framkvæmdastjóra rekstrarsviðs og mannauðs (COO). Stacey Katz tekur við af Lindu sem fjármálastjóri Marel.

„Markmið breytinganna er að skerpa á skilvirkni í rekstri, stjórnun lykilfjárfestinga til að auka hraða og sveigjanleika og að styðja við vaxtarmarkmið,“ segir í tilkynningunni.

Þá er Folkert Bölger að yfirgefa félagið en hann gengt stöðu framkvæmdastjóra framleiðslu og innkaupa (e. EVP Global Supply Chain). „Ég þakka Folkert Bolger kærlega fyrir hans mikilvæga framlag til Marel í gegnum árin og óska honum velfarnaðar í framtíðarverkefnum á nýjum vettvangi,” er haft eftir Árna Oddi Þórðarsyni, forstjóra Marel.

Linda Jónsdóttir , sem tekur nú við stöðu framkvæmdastjóra rekstrar og mannauðs, hóf störf hjá Marel árið 2009 og hefur gegnt stöðu fjármálastjóra frá árinu 2014. Linda var leiðandi í tvískráningu félagsins á Euronext Amsterdam markaðinn árið 2019. Fram kemur að Linda muni nú leiða lykilfjárfestingar í innviðum til að styrkja undirstöður í rekstri og aðfangakeðju og styðja við rekstrarmarkmið.

„Í dag er fjárhagsstaða Marel sterk, grunnrekstur góður og félagið vel fjármagnað. Eitt mikilvægasta og stærsta verkefnið sem félagið tekst nú á við er fjárfesting og sjálfvirknivæðing á innflæði, vistun og dreifingu varahluta til að auka sveigjanleika og tryggja skjótan svörunar- og afhendingartíma um allan heim,“ segir í tilkynningunni um nýju stöðu Lindu.

Stacey Katz hefur verið skipuð fjármálastjóri í stað Lindu og mun bera ábyrgð á fjármálum, upplýsingatækni og Global Business Services. Stacey hefur starfað hjá Marel frá árinu 2014, nú síðast sem yfirmaður reikningsskila (e. Chief Accounting Officer). Áður starfaði Stacey við viðskiptaþróun og er hún sögð hafa spilað lykilhlutverk í hagræðingaraðgerðum félagsins á árunum 2014-2015.

Stacey lauk bachelor gráðu frá Cornell háskólanum í Bandaríkjunum og MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík. Hún er löggiltur endurskoðandi í New York og er með bandarískan og íslenskan ríkisborgararétt.