„Ég kolféll fyrir staðnum. Húsnæðið okkar var orðið of lítið og svo hafa bílastæðamálin verið að há okkur. Nú verða 300 bílastæði beint fyrir utan Baðhúsið,“ segir Linda Pétursdóttir, stofnandi og eigandi Baðhússins. Baðhúsið hefur um árabil verið í Brautarholtinu en flytur undir lok árs í vesturenda Smáralindar. Það verður á svipuðum slóðum og Debenhams.

Linda segir í samtali við vb.is að starfsemi Baðhúsins verða óbreytta en nýjungarnar eftir því fleiri. Áætlað verðmæti samningsins sem Baðhúsið gerir við fasteignafélagið Reginn nemur um 450 milljónum króna. Samningurinn er til tíu ára með framlengingu.

Betra spa

„Við munum leggja meiri áherslu á spa-hluta okkar og bæta við þjónustu sem við erum ekki með í dag,“ segir hún en tekur fram að hún vill ekki opinbera of mikið, svo sem hver hanni nýja staðinn. „Ég verð með mjög góðan arkitekt.“

„Það var kominn tími til að láta draumana rætast og ég hef mikla trú á þessu,“ bætir hún við.

Linda gerir ráð fyrir því að framkvæmdir við nýja Baðhúsið í Smáralind hefjist á næstu vikum en stefnt er að því að opna þar í desember.