Einskiptikostnaður nam 19,6 milljónum evra hjá Marel á síðasta ári en rekstrarhagnaður og tekjur jukust. Hagræðingaraðgerðir hjá félaginu eru hálfnaðar að sögn Lindu Jónsdóttur, fjármálastjóra Marel, sem tók við starfinu í nóvember.

„Við höfum verið að samþætta og loka einingum sem hafa ekki verið að skila til rekstrarins eins og Marel og fjárfestar gera kröfu um. Þá höfum við einnig verið að einfalda innra skipulag félagsins, sem var einfaldlega orðið of flókið. Loks höfum við verið í almennum hagræðingaraðgerðum þar sem kostnaðarhlutföll voru of há og ekki í samræmi við okkar langtímaplön.“

Markaðsaðilar tóku vel í síðasta uppgjör félagsins og hækkuðu bréf þess um leið og markaður opnaðist. „Við höfum fengið jákvæð viðbrögð við því hversu hratt þetta gengur fyrir sig enda hefur margt gerst á stuttum tíma. Verkefninu hefur fylgt mikil vinna innanhúss og oft er um erfiðar ákvarðanir að ræða. Við erum að leggja í þessa vinnu saman til þess að Marel geti fullnýtt tækifæri sín til framtíðar og farið úr því að vera frábært fyrirtæki í að verða framúrskarandi fyrirtæki.“

Nánar er rætt við Lindu í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem má nálgast hér.