Linda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri fjárstýringar hjá Marel hf. hefur tekið við hlutverki fjárfestatengils félagsins af Helgu Björk Eiríksdóttur, sem hefur látið af störfum. Í kjölfarið  hefur fyrirkomulagi fjárfestatengsla verið breytt og verður Linda eftir þessar breytingar framkvæmdastjóri fjárstýringar og fjárfestatengsla.

Lindu til aðstoðar verður Auðbjörg Ólafsdóttir sem hefur verið ráðin til Marel sem sérfræðingur í fjárfestatengslum. Auðbjörg mun einnig starfa með framkvæmdastjóra markaðs- og kynningarmála hjá félaginu.

Linda Jónsdóttir er viðskiptafræðingur og hefur starfað hjá Marel síðan 2009. Áður starfaði hún við fjárstýringu hjá Eimskip, Burðarási og Straumi fjárfestingabanka. Auðbjörg Ólafsdóttir er hagfræðingur og stjórnmálafræðingur og hóf störf hjá Marel í ágúst sl. Áður starfaði hún hjá Sendinefnd Evrópusambandsins á Íslandi , Greiningu Íslandsbanka og sem blaðamaður hjá Reuters og Viðskiptablaðinu.