Stjórnendur 101 Skuggahverfis hafa gripið til þess ráðs að bjóða kaupendum við Lindargötubyggingu að færa sig yfir í aðrar byggingar.

Gert er ráð fyrir að loka húsinu við Lindargötu en framkvæmdir verða ekki kláraðar fyrir en rofa tekur til á fasteignamarkaði.

Að sögn G. Odds Víðissonar, framkvæmdastjóra 101 Skuggahverfis, eru gluggar tilbúnir fyrir þennan hluta verksins og verður húsinu lokað. Óvíst er hins vegar hvenær verður ráðist í innréttingar.

18 íbúðir seldar

Í áfanganum sem nú er í smíðum eru 97 íbúðir en af því eru 18 seldar, eða tæplega 19%. Í því húsi sem lengst er komið eru 13 íbúðir og þar af 8 seldar. Það hús verður tilbúið um mánaðamótin júní/júlí.

Gert er ráð fyrir að annað hús verði tilbúið um haustið. Þar eru 30 íbúðir og fjórar þeirra seldar.

Í febrúar nk. verður síðan þriðja húsið tilbúið en þar eru 9 íbúðir og sex seldar. Eins og áður segir er óvíst hvenær Lindargötuhúsið verður byggt.