Samtals keypti Lindarhvoll þjónustu af lögmannsstofu Steinars Þórs Guðgeirssonar hæstaréttarlögmanns fyrir 39 milljónir króna á síðustu átta mánuðum síðasta árs. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um þá var í síðustu viku birt greinargerð um eignarhaldsfélagið Lindarhvol, sem heldur utan um eignir sem ríkissjóður fékk sem stöðugleikaframlag í tengslum við nauðasamninga slitabúanna.

Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega um félagið í síðustu viku, áður en greinargerðin var birt, og ræddi þar meðal annars við Benedikt Jóhannesson fjármála- og efnahagsráðherra um söluna á Lyfju út úr félaginu. Í greinargerðinni kemur fram að samtals hafi rekstrarkostnaður Lindarhvols numið 56,5 milljónum króna í fyrra, en þar af fékk Íslög, lögmannsstofa Steinar Þórs, ráðgjafa félagsins, 39 milljónir króna.

Samningurinn um þjónustuna var gerð 28. apríl síðastliðinn að því er Fréttablaðið greinir frá, en þar kom fram að lögmannsstofan átti að annast „þjónustu vegna umsýslu, fullnustu og sölu, á þeim stöðugleikaeignum sem voru í umsjá félagsins.“

Gætir í dag hagsmuna íslenska ríkisins í Kaupþingi

Steinar Þór var formaður skilanefndar slitabús Kaupþings á árunum 2008 til 2012, en í dag hefur hann það hlutverk að gæta hagsmuna íslenska ríkisins við söluferlið á hlut Kaupþings í Arion banka. Sigur hann því sem sérstakur eftirlitsmaður alla fundi stjórnar Kaupþings þar sem til umræðu er söluferli bankans.

Jafnframt á Steinar Þór einnig sæti í fjölmörgum félögum sem voru framseld til Lindarhvols við uppgjör stöðugleikaframlaga gömlu bankanna.

Bókfært virði eignanna í umsjá Lindarhvols nam 162 milljörðum í upphafi starfsemi félagsins, en um helmingur þess var skuldabréf útgefið af Kaupþingi til íslenska ríkisins. Þangað til í lok síðasta mánuðar hafa greiðslur til dótturfélaga auk greiðslna inn á stöðugleikareikning ríkissjóðs numið 140 milljörðum.