*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 29. janúar 2020 08:22

Lindarhvoll hafi kostað ríkið milljarð

Þetta kemur fram í drögum að niðurstöðu skýrslu ríkisendurskoðanda um félagið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Stjórn Lindarhvols náði ekki í öllum tilfellum að hámarka söluandvirði eigna sem voru í umsýslu félagsins á árunum 2016-2018. Þetta kemur fram í drögum að niðurstöðu skýrslu ríkisendurskoðanda um félagið en þetta hefur Markaðurinn eftir heimildum sínum.

Skýrslu ríkisendurskoðanda hefur verið beðið í talsvert langan tíma. Settur ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, skilaði greinargerð um Lindarhvol í júlí 2018 en til stóð að skila skýrslunni í fyrra. Það hefur ítrekað dregist en heimildir Viðskiptablaðsins herma að það megi rekja til þess hve langan tíma fjármála- og efnahagsráðuneytið og stjórn Lindarhvols hafa tekið sér í að veita umsögn um skýrsludrögin.

Sjá einnig: Ríkið orðið af hálfum milljarði

Samkvæmt heimildum Markaðarins er áætlað að ríkið hafi orðið af um milljarði við söluna á eignunum og að þar muni mest um sölu á átján prósent hlut í eignarhaldsfélaginu Klakka haustið 2016 fyrir 505 milljónir. Nýverið var fjallað um málið í Viðskiptablaðinu en þar kom fram að ríkið hafi orðið af um hálfum milljarði króna við þá sölu eina. Við söluna var hæsta tilboði ekki tekið og vaxtaákvæði bætt við kaupsamning kaupanda sem ekki hafði verið í upphaflegu tilboði.

Sjá einnig: Tilboði breytt og því hæsta ekki tekið

Von er á endanlegri skýrslu um starfssemi Lindarhvols í næsta mánuði ef allt gengur eftir. Ef umsögn stjórnar Lindarhvols nú gefur tilefni til breytinga á skýrslunni gæti það tafið málið frekar.

Stikkorð: Lindarhvoll