Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur sett á stofn félagið Lindarhvol ehf. og skipað því stjórn. Þetta kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins.

Félagið, sem er að fullu í eigu ríkissjóðs, mun hafa það hlutverk að annast umsýslu með og fullnusta þær eignir sem lagðar eru til ríkissjóðs sem hluti af svokölluðu stöðugleikaframlagi fjármálafyrirtækja, þ.e. aðrar en eignarhluti í Íslandsbanka sem færast til Bankasýslu ríkisins.

Í stjórnina voru skipuð Þórhallur Arason, skrifstofustjóri í fjármála- og efnahagsráðuneyti og staðfengill ráðuneytisstjóra, Haukur C. Benediktsson, forstöðumaður Eignasafns Seðlabanka Íslands, og Áslaug Árnadóttir, lögfræðingur. Á heimasíðunni kemur hinsvegar fram að Áslaug hafi sagt sig frá stjórnarstörfum vegna mögulegs vanhæfis og hafi ekki tekið þátt í störfum þess.

Varamenn eru Esther Finnbogadóttir, sérfræðingur í fjármála- og efnahagsráðuneytinu, og Sigurbjörn Einarsson, viðskiptafræðingur.