Sænska verslanakeðjan Lindex fagnar um þessar mundir fimm ára afmæli á íslenskum markaði. Í tilefni af því var á dögunum haldin afmælishátíð í verslunum í Smáralind, Kringlunni og Glerártorgi þangað sem 10.000 manns lögðu leið sína. Fjöldi gesta minnir um margt á þær viðtökur sem verslunin fékk þegar hún opnaði fyrst í Smáralind á sínum tíma en neyddist fljótlega til að loka aftur í stutta stund þegar lager fyrirtækisins kláraðist. Að sögn Lóu Dagbjartar Kristjánsdóttur og Alberts Þórs Magnússonar, eigenda Lindex á Íslandi, hefur gengi fyrirtækisins verið framar þeirra björtustu vonum, en þau reka í dag fimm verslanir á þremurstöðum.

Vona að H&M fylgi meiri viðskipti

Nú hefur H&M staðfest komu sína til landsins, var það áfall fyrir ykkur?

„Það hafa verið fréttir um yfirvofandi komu H&M á hverju einasta ári síðan við byrjuðum en eftir að þetta fékkst staðfest hjá Smáralind má kannski segja að það hafi vaknað blendnar tilfinningar, þó ekki endilega neikvæðar tilfinningar. Við töluðum í kjölfarið við okkar fólk erlendis sem er í samkeppni við H&M alls staðar. Þeim fannst þetta í raun ekkert tiltökumál enda má segja að umgjörð fyrirtækisins sé að einhverju leyti hönnuð með samkeppni við H&M í huga. Það er vissulega um stóran samkeppnisaðila að ræða en það má ekki gleyma því að þeir eru nú þegar okkar stærsti samkeppnisaðili án þess að vera með verslun á landinu. Við erum í raun bara frekar spennt enda heldur svona samkeppni manni á tánum og neyðir mann til að horfa inn á við og meta hvort það sé eitthvað sem við getum gert betur.

Auk þess segir sagan að þar sem þeir opna verslun eykst salan hjá flestum öðrum og við erum alls ekki hrædd við samanburðinn við H&M. Verslunarmiðstöðin verður um leið samkeppnishæfari og dregur fleira fólk að. Í dag er mjög stór hópur af fólki sem vill helst ekki versla á Íslandi en fer þess í stað alltaf erlendis að versla og við erum núna að vonast til þess að fá meiri viðskipti frá þessum einstaklingum,“ segir Lóa.

„Í þessum bransa er alltaf talað um „fótatraffík“ en með því er átt við fjölda þeirra viðskiptavina sem ganga framhjá glugganum þínum. Ef horft er á þróunina þar sem H&M kemur þá er næstum öruggt að þegar fólk gengur út úr verslunum hjá þeim þá fara þeir í einhverjar verslanir sem eru nálægt og sú fótatraffík mun þá skila sér hingað heim. Við teljum þess vegna að þessi alda muni koma til með að lyfta öllum skipum, stórum sem smáum. Okkar áætlanir eru ekkert að fara að breytast en ég hef hinsvegar fulla trú á því að þeim verði ágætlega tekið þegar þeir loksins opna. Við munum ekki hrökkva í kút eða fara út í einhverjar sérstakar aðgerðir til að mæta komu H&M á íslenskan markað. Það hefur verið okkar stefna frá upphafi að veita vörur á sem hagkvæmasta verði og tískuupplifun á heimsmælikvarða og það mun ekkert breytast þó að þeir komi hingað,“ segir Albert.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.