Forráðamenn Lindex á Íslandi hafa ákveðið að opna nýja 330 fermetra verslun í Korssmóa, Reykjanesbæ þann 12. ágúst næstkomandi. Samningur þess efnis hefur verið undirritaður af hálfu Urtusteins fasteignafélags og forráðamanna Lindex.

Verslunin, sem er staðsett í aðalgangi verslunarmiðstöðvarinnar, mun bjóða allar þrjár meginvörulínur Lindex.

„Þetta er frábært næsta skref fyrir okkur en við opnuðum Lindex í Smáralind árið 2011, í Kringlunni árið 2013 og á Glerártorgi 2014.  Við teljum það vera einstaklega jákvætt að geta nú komið á Suðurnesin þar sem er mikill uppgangur og öflugt samfélag.  Við erum þakklát fyrir hversu vel hefur tekist til með staðsetningu og hlökkum mikið til að bjóða okkar viðskiptavinum á Suðurnesjum upp á tískuupplifun á heimsmælikvarða“ segir Lóa B. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.

„Við erum mjög ánægðir með þennan samning og teljum að það felist í því mikil viðurkenning fyrir Krossmóa að Lindex velji það fyrir sína næstu verslun.  Verslunarmiðstöðin Krossmói er afar vel staðsett og þar á verslun án vafa eftir að aukast enn frekar á komandi misserum”, segir Skúli Skúlason, frkamkvæmdastjóri Urtusteins fasteignafélags.

„Þess ber að geta að nýja verslunin verður byggð upp með nýrri innréttingahönnun Lindex sem leit dagsins ljós fyrst við opnun í London.   Hönnunin byggir á björtu yfirbragði,  ólíkum litbrigðum hvítra lita og svartra auk viðar  sem gefur versluninni skandínavískt yfirbragð.  Verslunin mun því veita viðskiptavinum innblástur og einstaklega hlýlegar móttökur sem á sér ekki hliðstæðu,“ er tekið fram í fréttatilkynningu.