Sænska tískufatakeðjan Lindex mun í nóvember opna verslun í Smáralind samkvæmt fréttatilkynningu frá fyrirtækinu en Lindex er í hópi stærstu fatakeðja Norðurlanda og hefur að undanförnu verið að stækka markaðssvæði sitt sem nú nær til 14 landa. Rekstrartekjur fyrirtækisins í fyrra voru 5,8 milljarðar sænskra króna. Rekstur verslunarinnar á Íslandi verður með umboðssamngi við Lóu D. Kristjánsdóttur og Albert Þór Magnússon.

Haft er eftir Göran Bille, forstjóra Lindex, að „frumkvöðlahugsun Íslendinga er vel þekkt og við hjá Lindex trúum á framtíð íslenska markaðarins. Framundan er spennandi tíð og sjáum við fram á jákvæða þróun Lindex á Íslandi. Við erum bjartsýn á að vörumerki Lindex falli í góðan jarðveg hjá íslenskum konum.“

Lindex var stofnað árið 1954 í sænska bænum Alingsås, skammt fyrir utan Gautaborg.