Lindex mun opna sértæka kventískuvöruverslun í Kringlunni þann 15. nóvember nk.

Verslunin verður í 320 fermetra rými og mun opnun verslunarinnar gera það að verkum að öllum deildum Lindex verður gerð skil í verslunarmiðstöðinni. Heildarfermetrar sem verslunin mun starfa á í Kringlunni við breytingarnar verða um 700 og mun starfsmannafjöldi fyrirtæksins á Íslandi fjölga í yfir 100 störf við opnun verslunarinnar.

Lindex fagnar nú 60 ára afmæli sem haldið var upp á í Gautaborg liðna helgi. „Við erum nýkomin frá afmælinu í Gautaborg þar sem við fengum frábæran innblástur og innsýn inn í það sem koma skal í tískunni og erum gríðarlega spennt fyrir því að geta gert því skil í Kringlunni með einstökum hætti,“ segir Lóa Dagbjört Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi.

„Með opnun Lindex kventískuvöruverslunar hefur Kringlan náð því markmiði að bjóða viðskiptavinum sínum upp á alla vörulínu Lindex og svarað þannig kalli viðskiptavina okkar,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar.

„Við erum sérstaklega ánægð með að geta nú boðið kventísku Lindex í Kringlunni og erum full tilhlökkunar til áframhaldandi samstarfs,“ segir Kristjana Ósk Jónsdóttir, markaðsstjóri Reita.