Heimildir Viðskiptablaðsins herma að það mál, sem lögð sé einna mest áhersla á innan embættis sérstaks saksóknara að leysa, snúi að lánveitingum til Lindsor Holdings Corporation þann 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands.

Staðfest er að 171 milljón evra hafi þá runnið til félagsins, sem talið er að hafi verið í eigu Kaupþings. Lánið til Lindsor var notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum bankans og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar. Skuldabréfin voru keypt á mun hærra virði en markaðsvirði þeirra sagði til um. Talið er að viðskiptin hafi losað þá sem seldu bréfin undan ábyrgðum og tryggt þeim umtalsverðan ágóða. Auk þess telja starfsmenn sérstaks saksóknara fullvíst að öll skjöl vegna lánasamninganna hafi verið útbúin í nóvember og desember 2008, eftir fall bankans. Skjölin voru öll undirrituð af Hreiðari Má Sigurðssyni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.