*

sunnudagur, 13. júní 2021
Innlent 1. apríl 2011 15:45

Lindsor var stjórnað af stjórnendum Kaupþings

Eitt þeirra mála sem embætti sérstaks saksóknara er að rannsaka tegnist Lindsor Holdings Corporation.

Ritstjórn
Birgir Ísl. Gunnarsson

Eitt þeirra mála sem embætti sérstaks saksóknara er að rannsaka, og framkvæmdi húsleitir út af í vikunni, tengist félögunum Marple Holdings S.A., sem er sagt vera í eigu Skúla Þorvaldssonar, og Lindsor Holdings Corporation.

Lindsor er skráð á Tortólaeyju og eigandi þess er sagður vera Otris, félag sem upphaflega var stofnað utan um hlutabréf kaupréttarsamninga Búnaðarbankans. Þegar sá tilgangur félagsins var ekki lengur til staðar var Otris notað sem afskriftasjóður utan efnahagsreiknings Kaupþings, en stjórnendur bankans stýrðu félaginu.

Tryggðu umtalsverðan ágóða

Kaupþing lánaði Lindsor 171 milljón evra, um 27,7 milljarða króna á núvirði, 6. október 2008. Lánið var veitt sama dag og Seðlabanki Íslands veitti Kaupþingi 500 milljóna evra neyðarlán. Lánið til Lindsor, sem var aldrei borið undir lánanefnd bankans, var notað til að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum þess banka og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar.

Í greinargerð sérstaks saksóknara sem fylgdi gæsluvarðhaldsbeiðni yfir Magnúsi Guðmundssyni í maí í fyrra, segir „að tilgangur viðskiptanna hafi verið sá að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfanna af eigendum þeirra og yfir á Kaupþing á Íslandi“. Þá benda fyrirliggjandi gögn til þess að Lindsor hafi keypt skuldabréfin á mun hærra verði en markaðsverði.

Kaupþing féll þremur dögum eftir kaup Lindsor á umræddum bréfum. Þar sem Lindsor átti ekki aðrar eignir en verðlausu skuldabréfin og engar tryggingar voru veittar fyrir láninu varð tap þrotabús Kaupþings gríðarlegt. Talið er að viðskiptin hafi hins vegar losað þá sem seldu bréfin undan ábyrgðum og tryggt þeim umtalsverðan ágóða.

Fölsuð skjöl

Þegar farið var að grandskoða þau skjöl sem lánasamningur Kaupþings við Lindsor byggði á kom í ljós að margt benti til þess að skjölin hefðu verið útbúin og undirrituð í nóvember og desember 2008, eftir fall Kaupþings. Að mati sérstaks saksóknara virðast skjölin vera fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar. Skjölin voru undirrituð af Hreiðari Má Sigurðssyni og nokkrum starfsmönnum bankans í Lúxemborg og rannsakendur telja að Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrum fjármálastjóri Kaupþings, hafi haft milligöngu um frágang skjalanna. Guðný Arna var á þeim tíma enn starfandi hjá Nýja Kaupþingi og hafði setið í skilanefnd gamla bankans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.