Hlutfall línlegs áhorfs á íslenskar sjónvarpsstöðvar stendur nokkurn veginn í stað frá því í fyrra. Þetta er niðurstaða skýrslu sem Gallup vann fyrir Póst- og fjarskiptastofnun og var birt á dögunum. Samkvæmt henni fara rúmlega 86% áhorfs á dagskrá íslenskra sjónvarpsstöðva fram með línulegum hætti, þ.e. áhorfandi horfir á útsendinguna sjálfa þegar hún fer fram. Hliðrað áhorf sem fram fer innan sólarhrings frá útsendingu eykst dálítið og fer úr 8,7% í 9,3%.

Það hliðraða áhorf sem fer fram eftir sýningardag, en innan viku frá útsendingu minnkar að sama skapi um 0,7%. Eftir að hliðrað áhorf hafði þrefaldast á árunum 2012 til 2015 sýna mælingar því nú að hlutfall áhorfs utan útsendingartíma hefur nánast alveg staðið í stað milli áranna 2015 og 2016.