Um þessar mundir funda fjórir málefnahópar flokkanna fimm sem eiga í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Það eru fulltrúar Vinstri grænna, Pírata, Viðreisnar, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar sem funda. Þetta kemur fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, reiknar með því að niðurstaða úr viðræðum hópanna fjögurra gæti legið fyrir á morgun. Á fundum málefnahópanna er fjallað um; Atvinnu- og umhverfismál, efnahagsmál og ríkisfjármál, velferðar- og menntamál og stjórnarskrá, alþjóðamál og fleira.

Hún segir einnig að ekki hafi verið farið yfir skiptingu ráðuneyta enn og segir að það verði fyrst farið yfir málefnin. Eins og áður hefur komið fram þá heldur Katrín Jakobsdóttir aftur á fund Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, á morgun til þess að upplýsa hann um stöðu mála.