*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 5. janúar 2017 10:35

Línurnar gætu skýrst í dag

Framkvæmdastjóri SFS segist ekki vilja lög á deiluna. Varaformaður Sjómannasambands Íslands segir engan bilbug á sínum félagsmönnum að finna.

Trausti Hafliðason
Flotinn hefur nú verið bundinn við bryggju í rúmar þrjár vikur.
Haraldur Guðjónsson

Fulltrúar Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og Sjómannasambands Íslands funda klukkan eitt í dag hjá ríkissáttasemjara. Þetta er fyrsti fundur deiluaðila síðan 20. desember. Þann 14. desember felldu sjómenn kjarasamning með afgerandi hætti. Verkfall skall á þá um kvöldið og hefur það því staðið yfir rúmar þrjár vikur.

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir að þótt fyrsti formlegi fundurinn í rúmar tvær vikur sé í dag hafi deiluaðilar átt í óformlegum við­ ræðum.

„Við höfum átt í ágætum samskiptum og ég held að báðir aðilar séu að leita leiða til að finna lausn á þessari deilu. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar. Ég bind vonir við að línur fari að skýrast núna og við getum komið þessum viðræð­ um í góðan farveg.“

Vill ekki lög á deiluna

Heiðrún Lind segir að verkfallið hafi þegar haft mikil áhrif á útgerð­ir landsins.

„Við höfum bent á að í beinum tekjum hefur þetta þýtt 500 milljóna króna tap dag hvern í útflutningsverðmætum. Ólíkt þeirri stöðu sem komið hefur upp í fyrri verkföllum sjómanna þá hafa útgerðirnar í dag náð töluverðum árangri á ferksfiskmörkuðum. Sá markaður er mjög viðkvæmur og krefst þess að það sé stöðugt framboð af íslenskum ferskum fiski. Þegar framboðið minnkar eða hverfur leita þessir erlendu aðilar mjög fljótlega til annarra aðila til þess að kaupa fisk. Í einhverjum tilvikum hafa stórir erlendir viðskiptavinir tilkynnt að þeir hafi fundið aðra birgja. Hvort það sé varanlegt vitum við ekki en því lengur sem verkfallið varir þá aukast líkurnar á því.“

Heiðrún Lind segist ekki fylgjandi því að lög verði sett á verkfallið.

„Við höfum ekki verið talsmenn þess að Alþingi grípi inn í deilur aðila á vinnumarkaði. Við trúum því enn að við getum leyst þessa deilu án aðkomu Alþingis.“

Rétt eftir áramót bárust þau tíðindi að Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, væri kominn í ótímabundið leyfi frá störfum, þar sem hann hefði greinst með æxli í heila fyrir jól. Konráð Alfreðsson, varaformaður sambandsins, hefur því tekið við keflinu og og var sú ákvörð­ un tekin í samráði við stjórn félagsins.

Grjótharðir

Konráð segir að þótt ekki hafi verið fundað með SFS síðan fyrir jól hafi sjómenn fundað og stillt saman strengi. Spurður á hvaða atriðum samningarnir séu að stranda svarar hann: „Það voru lagðar fram ákveðnar kröfur 20. desember. Þetta voru kröfur sem snertu olíuverðstenginguna, sjómannaafsláttinn, nýsmíðaálagið, fatapeninga og fæðispeninga. Þetta er svona í grófum dráttum það sem við viljum ná í gegn.“

Um fundinn í dag segir Konráð að það sé alltaf von á sáttum þegar menn tali saman.

„Ég er sannfærður um það að þeir eru sammála mér í því að það er betra að fjárfesta í góðum sjómönnum heldur en ekki. Þó verkfallið hafi nú stað­ ið í þennan tíma þá eru mínir félagsmenn alveg grjótharðir og standa þétt við bakið á okkur í samninganefndinni. Það er engan bilbug á þeim að finna.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.