Indónesíska flugfélagið Lion air hyggst hætta við 22 milljarða dollara, um 2.700 milljarða króna, virði af Boeing 737 flugvélapöntunum eftir að aðeins tveggja mánaða gömul slík vél á vegum félagsins hrapaði í október. Bloomberg greinir frá .

Rusdi Kirana, meðstofnandi flugfélagsins, sem er það stærsta í Indónesíu, segir flugvélaframleiðandann hafa að ósekju gefið í skyn að Lion air bæri ábyrgð á slysinu. Allir um borð, samtals 189 manns, létust. „Þeir töldu fólki trú um að við höfum ekki sinnt viðhaldi flugvéla okkar almennilega. Það var mjög rætið, óviðeigandi og siðlaust,“ er haft eftir Kirana.

Félagið, sem er í miklum vexti, er með 368 flugvélar í pöntun hjá Boeing og Airbus samanlagt, en af þeim eru um 250 frá Boeing að sögn Kirana. Félagið rekur í dag 117 vélar, og heildarpantanirnar eru því yfir þrefalt fleiri en núverandi vélafjöldi.

Kirana segir málið ekki muni standa í vegi fyrir markmiði sínu um að flugvélafloti félagsins muni telja 1.000 vélar þegar fram líða stundir.