Tyrkneska líran hefur lækkað um nærri 8% gagnvart Bandaríkjadollar í dag og náði enn einu sögulega lágmarkinu eftir að seðlabankinn í Tyrklandi lækkaði vexti úr 15% í 14% í gær þrátt fyrir að verðbólga mælist yfir 20%.

Virði lírunnar á móti dollaranum hefur helmingast í ár en hún tók að veikjast verulega í haust nú þegar seðlabankinn réðst í röð stýrivaxtalækkana. Samtals hefur seðlabankinn lækkaði vexti um 500 punkta frá því í september.

Bankinn gaf til kynna að hann myndi hægja á slökun peningastefnunnar og vakta áhrifin á næstu þremur mánuðum. Tyrkneski seðlabankinn hefur gripið inn í fjórum sinnum á gjaldeyrismörkuðum á síðustu tveimur vikum og selt dollara til að draga úr veikingu lírunnar.

Framkvæmdastjóri iðnaðarráðs Istanbúl sagðist „furðulostinn“ að fylgjast með seðlabankanum lækka vexti og nota síðan gjaldeyrisforðann daginn eftir til að styðja við líruna.

Seðlabankinn, sem er með 5% verðbólgumarkmið, segir verðbólguþrýstingin vera tímabundinn og nauðsynlegan til að ýta undir hagvöxt og bæta viðskiptajöfnuð. Hagfræðingar eiga von á að verðbólga gæti náð 30% á næsta ári, m.a. vegna hækkandi verðs á innflutningi.

Strax í kjölfar vaxtaákvörðunar seðlabankans tilkynnti Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, að lágmarkslaun yrðu hækkað um 50% á næsta ári. Virði lágmarkslauna í landinu í dollurum hefur lækkað úr 380 dollurum í 185 dollara.