Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti ákvað aðfararnótt fimmtudags að reka tvö háttsetta embættismenn tyrkneska seðlabankans. Annar þeirra, Ugur Namik Kucuk, var eini meðlimur peningastefnunefndar seðlabankans sem var mótfallinn óvæntri eitt prósent stýrivaxtalækkun í síðasta mánuði þrátt fyrir 19% verðbólgu. Financial Times greinir frá.

Kucuk var einnig andvígur stefnu seðlabankans um að stuðla að hærra gengi tyrknesku lírunnar með sölu á gjaldeyrisforða bankans. Tyrkneski seðlabankinn tók upp þessa stefnu í byrjun árs 2019 en hvarf frá henni í lok síðasta árs.

Líran hefur nú aldrei verið jafn veik en alls hefur virði hennar á móti bandaríska dollaranum fallið um tæplega 60% frá upphafi árs 2018. Tyrkneski gjaldmiðillinn féll í verði í síðustu viku eftir að Reuters hélt því fram að Erdogan hafði misst traust á seðlabankastjóranum Sahap Kavcioglu. Upplýsingafulltrúi Erdogan hafnaði fréttunum og tilkynning forsetaembættisins í gær hefur verið túlkuð sem stuðningsyfirlýsing við Kavicioglu.

Sjá einnig: Óhefðbundin sýn nýs seðlabankastjóra

Segja má að spenna hafi ríkt í tyrkneska seðlabankanum undanfarin ár en Erdogan hefur barist fyrir lægri stýrivöxtum fyrir alla muni, þrátt fyrir hækkandi verðbólgu. Hann hefur sagt upp þremur seðlabankastjórum á tæplega tveggja ára tímabili.