Tillaga Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra um að fólk geti fært sig úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð er framkvæmanleg ef eldri lánin eru greidd upp og Íbúðalánasjóður endurfjármagnaður með óverðtryggðum lánum. Þetta sagði Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, við fréttastofu RÚV í hádeginu. Öðruvísi sé þetta ekki hægt því sjóðurinn fjármagni sig með verðtryggðum lánum. Hann sagði að þetta væri stórt mál.

„Í fyrsta lagi er hægt að segja að sú almenna regla gildi í lögfræði að samningur skuli standa, nema þá sérstaklega ef það er eitthvert ólögmæti eins og kom fyrir í gengislánadómunum," sagði Sigurður í fréttum RÚV. „Það ber líka að hafa í huga að það er ekki hægt að breyta efnahagsreikningi Íbúðalánasjóðs, það er að segja okkar útlánahlið, breyta henni úr verðtryggði í óverðtryggt, við þurfum þá líka að breyta hinni hliðinni.“

„Íbúðalánasjóður auðvitað fjármagnar sig verðtryggt og lánar verðtryggt og ef það væri farið út í það breyta verðtryggðum útlánum sjóðsins einhliða þá situr sjóðurinn í þeirri stöðu að lána óverðtryggt en skulda verðtryggt og það er gríðarlega áhætta sem af því skapast," sagði Sigurður.

Starfshópur, sem fjallaði um afnám verðtryggðra lána, kynnti tillögur sínar á fimmtudaginn. Á meðal þess sem hann leggur til er að verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára verði afnumin þann 1. janúar 2015. Þá verði á sama tíma lágmarkstími verðtryggðra neytendalána hækkaður úr fimm árum í allt að 10 ár.

Vilhjálmur Birgisson,  formaður Verkalýðsfélags Akraness átti sæti í hópnum og skilað séráliti. Hann leggur til að lántakendur geti án uppgreiðslugjalds breytt verðtryggðum lánum í óverðtryggð.

Sigurði líst ekki vel á þá hugmynd að fella gjaldið niður vegna þess að sá kostnaður myndi þá leggjast á Íbúðalánasjóð.

„Í sjálfu sér væri hægt að koma neytendum undan þessum kostnaði ef einhver annar tekur að sér borga, eins og til dæmis ef stjórnvöld ákveða að þau myndu greiða þennan kostnað og þetta tjón sem hlýst við uppgreiðslu,“  sagði hann í fréttum RÚV.