Fátt stendur nú í vegi fyrir sameiningu Leikfélags Akureyrar, Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og Menningarhússins Hofs. Sameiningin var samþykkt á auka aðalfundi Leikfélags Akureyrar í gær og þar með hafa öll félögin samþykkt sameininguna. Frá þessu er sagt á vef AKV.

Stefnt er að því að nýtt félag taki til starfa þann 1. ágúst næstkomandi og mun félagið annast reksturinn í samræmi við núverandi samninga félaganna þriggja við Akureyrarbæ. Félögin þrjú, sem nú stendur til að sameina, hafa lengi verið í fjárhagsvandræðum. Vonir standa til að með sameiningu muni aukið fjármagn renna til verkefna og þannig verði hægt að bæta reksturinn.

Leikfélagið, Sinfóníuhljómsveitin og Hof hafa verið meginstoðir í menningarlífi á Akureyri. AKV hefur eftir Jóni Gunnari Þórðarsyni leikstjóra að um mjög stórt skref sé að ræða og því verði að stíga varlega til jarðar. Soffía Gísladóttir, formaður Leikfélags Akureyrar, segir að sameiningin muni hafa í för með sér aukna sérhæfingu og fagmennsku, aukin tækifæri til þróunar, endurmenntunar og nýsköpunar.

Sameiningin er hugsuð sem tilraunaverkefni til þriggja ára.