Ríflega 85 milljóna króna tap var af rekstri Listaháskóla Íslands (LHÍ) á síðasta starfsári. Fyrir vikið er eigið fé skólans orðið neikvætt um 76,3 milljónir. Fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag. Rektor LHÍ segir að þegar hafi verið gripið til harkalegra aðhaldsaðgerða til að rétta af reksturinn.

Í ársskýrslu skólans fyrir árið 2012 kemur fram að rekstrargjöld skólans jukust um tæp 17% á milli ára sem einna helst olli því að í stað 24 milljóna hagnaðar á starfsárinu á undan var 85,5 milljóna tap á rekstrinum.

Í ávarpi rektors, sem finna má í skýrslunni, segir að ljóst sé að fjárhagsstaða skólans sé mjög viðkvæm og að hann verði ekki rekinn annað ár til viðbótar með sama halla. Þó megi hafa í huga að samkvæmt fjáraukalögum muni skólinn fá 35 milljóna eingreiðslu frá ríkinu vegna kostnaðar sem féll til við flutning á hluta starfsemi hans úr Skipholti í Þverholt. Staða hans sé því betri sem því nemur.