Listasöfn og kvikmyndahús í Hollandi buðu tímabundið upp á handsnyrtingu, klippingu og hóptíma í líkamsrækt, og mótmæltu þannig nýjustu sóttvarnaraðgerðum hollenskra stjórnvalda. Þetta kemur fram í frétt hjá Bloomberg.

Stjórnvöld í Hollandi ákváðu nýlega að slaka verulega á sóttvarnaraðgerðum, en spítalainnlagnir vegna Covid hafa dregist saman í Hollandi þrátt fyrir metfjölda smita á degi hverjum. Listasöfn og kvikmyndahús féllu þó ekki undir þær tilslakanir og átti slík starfsemi áfram að vera lokuð.

Van Gogh listasafnið í Amsterdam bauð tímabundið upp á klippingu og handsnyrtingu. Frans Hals listasafnið í Haarleem breyttist tímabundið í líkamsræktarstöð eins og sjá má hér að neðan. Hollensk yfirvöld hafa nú þegar skipað þeim að loka og láta af athæfi sínu, en RÚV fjallaði um málið í gær.

Konunglega tónlistarhöllin í Amsterdam (Koninklijk Concertgebouw) bauð einnig tímabundið upp á hársnyrtingu á meðan ljúfir tónar hljómuðu um höllina, eins og sjá má hér að neðan.