Viðskiptanefnd Alþingis leggur til að Alþingi álykti að að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að fram fari listfræðilegt mat á listaverkasöfnum Íslandsbanka hf., Nýja Kaupþings banka hf. og NBI hf. í því skyni að undirbúa kaup á þeim listaverkum sem teljast þjóðargersemar og öðrum verkum er þýðingu kunna að hafa fyrir íslenska listasögu.

Búast má við að ályktunin verði samþykkt á Alþingi fyrir þinglok. Í henni er lagt til að fyrrgreindu listfræðilegu mati verði lokið eigi síðar en 1. október 2009 .

„Leitast skal við að tryggja að þjóðargersemar og þýðingarmikil listaverk verði varðveitt og þau ekki seld eða látin af hendi úr framangreindum listaverkasöfnum án þess að þau verði fyrst boðin Listasafni Íslands til kaups," segir í ályktunardrögunum.

4.000 verk í eigu gömlu bankanna

Við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands árið 2003 runnu listaverk þeirra til einkaaðila. Í kjölfar bankahrunsins hafa hins vegar vaknað spurningar um afdrif þeirra.

Talið er að við bankahrunið hafi verið um 4.000 verk í eigu gömlu bankanna og segir í greinargerð tillögunnar að þau séu hluti af íslenskum menningararfi.

„Almennur áhugi er á að listaverkin verði áfram eign ríkisins, hvernig sem eignum hinna nýju banka verður ráðstafað að öðru leyti," segir í greinargerðinni.